top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Burstabær rís á 21. öldinni


Lilja Magnúsdóttir, pistill, Efri-Vík, Landbrot, Suðurland, landsbyggðin, menning, burstabær, úr vör, vefrit
Það er óvenjulegt að byggja burstabæ á 21. öldinni. Ljósmynd Lilja Magnúsdóttir

Það er ekki algengt að menn byggi burstabæi á 21. öldinni en það er Hörður Davíðsson í Efri-Vík í Landbroti að gera. Efnið í bæinn kemur úr nágrenninu; hraunsteinar í hleðsluna, rekaviður var sóttur á fjöru og verður notaður í sperrur, veggi og innviði og torfið taka menn í nágrenninu. Byggingin gengur vel. Hér þarf ekki stórvirkar vélar né háa krana.

Á Suðurlandi voru víða fjósbaðstofur, kýrnar voru þá niðri og baðstofan uppi. Hitinn frá kúnum yljaði fólkinu á vetrarkvöldum. Fram yfir 1960 voru enn til bæir þar sem fólk bjó við þessar aðstæður, voru þetta hlý og notaleg híbýli en ekkert verður sagt um lyktina.

Stutt frá Efri-Vík í Landbroti er bærinn Hnausar í Meðallandi. Þar er gamall burstabær sem Þjóðminjasafnið sér um. Talið er að húsin á Hnausum séu að stofni til frá 1200 sem er þá með allra elstu húsum á Íslandi. Á Hnausum er fjósbaðstofa, stofa og smiðja. Öll verkfærin í smiðjunni eru gömul og hafa varðveist á þessum stað, mann fram af manni. Húsin eru snyrtileg og vel við haldið en mjög lágt til lofts, sérstaklega í fjósinu og í baðstofunni. Það er ótrúlegt að koma inn í þetta gamla hús.

Lilja Magnúsdóttir, pistill, Efri-Vík, Landbrot, Suðurland, landsbyggðin, burstabær, menning, úr vör, vefrit
Það er ekki hátt til lofts í baðstofunni á Hnausum en þar er notalegt. Takið eftir ormétnum rekaviðnum sem er sýnilegur á bak við stólinn. Ljósmynd Lilja Magnúsdóttir
Burstabærinn í Efri-Vík verður svipaður og á Hnausum. Fjósbaðstofan fær heiðurssess í miðburstinni, þar sem hún verður uppi en básar fyrir kýr niðri. Smiðjan verður undir burstinni sem er til hægri á myndinni. Hörður hefur viðað að sér tækjum og tólum sem notuð voru í smiðjum á öldum áður. Hugmyndin að byggingu bæjarins kviknaði þegar haldið var hleðslunámskeið í Efri-Vík fyrir þremur árum. Þá komu saman níu menn og lærðu handtökin við að hlaða. Seinna var bærinn teiknaður upp og nú er verið að smíða.

Hörður segir að markmikið með því að byggja húsið sé að gefa fólki tækifæri til að skoða eitthvað sem minnir á sögu okkar, verklag og híbýlahætti. Í sveitunum fyrir austan var mjög erfitt að flytja byggingarefni meðan jökulfljótin voru óbrúuð og ekki höfn við ströndina. Þess vegna hafa menn sennilega búið lengur í bæjum sem byggðir voru úr því efni sem var í sveitinni: grjóti, rekavið og torfi.

Lilja Magnúsdóttir, pistill, Efri-Vík, Landbrot, Suðurland, landsbyggðin, burstabær, menning, úr vör, vefrit
Efnið í bygginguna kemur allt úr heimabyggð. Ljósmynd Lilja Magnúsdóttir

Nýi burstabærinn stendur heima á hlaðinu í Efri- Vík og þar er líka Hótel Laki sem er fjölskyldurfyrirtæki. Beygt er af þjóðvegi 1 við Kirkjubæjarklaustur og ekið í ca 4 km til að finna Efri-Vík. Það er öllum velkomið að koma heim afleggjarann og skoða hvernig maður byggir burstabæ árið 2020.



Comments


bottom of page