Bræðurnir Eyjólfsson á Flateyri er elsta upprunalega verslun landsins, en sama fjölskyldan hefur rekið verslunina í sama húsnæði frá árinu 1914. Blaðamaður ÚR VÖR hitti Eyþór Jóvinsson á dögunum og fékk að heyra sögu verslunarinnar og hvernig hún hefur breyst í gegnum tíðina.
Langafi Eyþórs stofnaði verslunina upprunalega ásamt bræðrum sínum árið 1914. Það var svo bróðir langafa Eyþórs sem réði langafa hans sem verslunarstjóra. Fjórum árum síðar kom þriðji bróðirinn inn í reksturinn og eftir verslunina fékk verslunin nafnið Bræðurnir Eyjólfsson. Síðan þá hefur hún verið rekið sleitulaust síðan, fyrir utan smá pásu í kringum síðastliðin aldamót þegar verslunin fór úr því að vera bókabúð yfir í að vera safn og fornbókasala.
„Móðir mín rak þessa verslun áður en ég tók við henni fyrir sex árum síðan. Ég hef alist upp hér og vann frá átta ára aldri sem sendistrákur. Svo tók ég við versluninni fyrir sex árum síðan og hef alfarið séð um reksturinn síðan þá.
„Það er opið hér alla daga frá maí mánuði fram í september. Síðastliðinn vetur gerðum við tilraun við að hafa opið á laugardögum, það var ekkert brjálað að gera en samt gaman að hafa einhvern fastan punkt hér í bænum.“ segir Eyþór.
Verslunin er öll upprunaleg með sömu innréttingum. Inn af versluninni er íbúð langömmu og langafa Eyþórs, sem hefur staðið óhreyfð frá því þau létust. Eyþór segir að það sé líkt og að stíga 70 ár aftur í tímann að koma þangað inn.
„Langafi dó árið 1950 og þótt langamma hafi dáið 30 árum síðar, þá hreyfði hún nánast ekki við neinu þar til hún dó. Þannig að íbúðin er nánast eins og hún var árið 1950 og nákvæmlega eins og hún var 1983 þegar langamma deyr.“ segir Eyþór.
Verslunin er mjög vinsæll áfangastaður á Flateyri að sögn Eyþórs og staldrar þar við töluvert mikið af ferðafólki, Íslendingar jafnt sem og útlendingar. Eyþór segir að hann sjái það á ári hverju að þegar kemur inn í júlí mánuð þá fyllist allt af Íslendingum. „Það hefur verið stöðug aukning í ásókninni síðastliðin sex ár. Í fyrra fengum við 10.000 gesti þessa fimm mánuði sem var opið. Þetta er bæði fólk að forvitnast og skoða og líka fólk sem verslar hér, bara eins og gengur og gerist í öðrum verslunum.
„Við erum svo að vinna í að vera með viðburði næsta sumar, þvi þá eru liðin 100 ár frá því að verslunin fékk bóksöluleyfi, en verslunin byrjaði sem nýlenduverslun en árið 1920 hófst þar bóksala. Við ætlum því að fagna því með viðburðum, upplestrum og öðrum skemmtilegheitum sem tengjast bókum, bókaútgáfu, skáldskap og öðru slíku.“ segir Eyþór.
Í versluninni er til sýnis bókhaldið frá fyrsta degi og er því hægt að rekja hverja krónu sem hefur farið í gegnum reksturinn. Um er því bæði að ræða saga verslunarinnar og líka saga fólksins í leiðinni og er þetta því mikil heimild. Inni í íbúðinni er mikið af merkilegum bókum, mjög fágætum og skemmtilegum að sögn Eyþórs. „Langamma mín var kennari og eigum við allar kennslubækur hennar, líkt og landafræðibækur frá árinu 1870 sem eru ansi skrautlegar! Það er margt skemmtilegt sem hægt er að finna í hillunum þarna.
Í desember síðastliðnum voru liðin 100 ár frá því verslunin Bræðurnir Eyjólfssynir fékk verslunarleyfi. Rekstur hafði staðið yfir lengur, en hún fékk leyfi í desember árið 1918.
Við fögnuðum því með því að safna saman upplýsingum, myndum, sögum og textum frá Flateyringum og læstum það í læst tímahylki sem verður opnað eftir 100 ár. Samhliða því bjuggum við líka til tímahylki sem gestir verslunarinnar geta skrifað skilaboð til framtíðarinnar. Það er innsiglað og læst en hægt er að setja ofan í það og verður líka opnað eftir 100 ár.“ segir Eyþór.
Verslunin er opin frá klukkan 10 til 17 alla daga og segir Eyþór að oftast opni hann fyrr og sé með opið lengur. Eyþór snéri við rekstrinum þegar hann tók við honum fyrir sex árum síðan. Hann segir að staðan hafi verið döpur og hafi hann því ákveðið að breyta öllum rekstrarforsendum töluvert og eftir það hefur verslunin rétt úr kútnum. „Áður en ég tók við þá voru talsverðir fjárhagserfiðleikar. Það hafði verið lítil ásókn, lítil sala og verslunin rekin með miklu tapi til fjölda ára. Stærsta breytingin sem ég gerði hér er að skilgreina bókabúðina upp á nýtt sem verslun og takk safnastimpil af búðinni.
„Um leið og þú gerir verslun að safni þá drepurðu hana, þá verður hún heilög. Ég hætti því að tala um þetta sem safn um gamla verslun á Flateyri, heldur talaði ég um að hér væri lifandi verslun. Þá verður upplifun gesta önnur og fólk vill versla eitthvað í stað þess að skoða verslun sem var rekin fyrir löngu síðan.“ segir Eyþór.
Eyþór bætir við að með því að reka þetta sem verslun og halda sögunni gangandi þannig þá hafi öll umfjöllun orðið önnur og gestum fundist þeir vera þáttakendur í sögu verslunarinnar. „Þessi vinna sem ég lagðist í fyrir sex árum hefur gjörbreytt rekstrinum. Þetta er meira lifandi svona og enn áhugaverðara í núverandi formi. Fólk sem er í svipuðum rekstri ætti að hugsa út í þetta, hugsa út í hvaða hugmynd þú ert að gefa gestum þínum og hvernig þú getur aukið upplifun þeirra. Það er staðreynd að þú varðveitir sögu verslunarinnar best með því að halda henni áfram og með því verður til nýr kafli í sögu hennar.“ segir Eyþór.
Samkvæmt Eyþóri skiptir það miklu máli að hann sé sjálfur í versluninni, með því myndist sú tenging að verslunarmaðurinn sé tengdur stofnandanum.
„Það væri allt önnur upplifun ef það væri einhver ótengdur versluninni sem stæði þarna í gallabuxum og íþróttabol. Það verður meiri upplifun að hafa einhvern tengdan þessu, bæði varðandi söguna sjálfa og sögu fjölskyldunnar. Ég er sjálfur hálfgerður safngripur þarna!“ segir Eyþór að lokum og hlær.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Comments