top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Leikhúsið, eins og farsóttin, er sturlun, og það er smitandi“


Beðið eftir Beckett, Elfar Logi Hannesson, Trausti Ólafsson, Kómedíuleikhúsið, Haukadalur, pistill, list, menning, leikhús, einleikur, leikrit, Arnhildur Lilý Karlsdóttir, Vestfirðir, landsbyggðin, úr vör, vefrit
„En hinar stílfærðar hreyfingar Elfars Loga sem kenna má við smiðju Comedia del Arte koma áhorfandanum til hjálpar og veita honum haldreipi“ Ljósmynd Kómedíuleikhúsið

Vestur á fjörðum kúrir minnsta atvinnuleikhús landsins. Leikhúsið, sem rekið er af listahjónunum Elfari Loga Hannessyni og Marsibil Kristjánsdóttur, er til húsa í gamla félagsheimilinu í Haukadal í Dýrafirði. Kómedíuleikhúsið kann að vera smátt í sniðum en er þó engu að síður stórhuga og hefur fært áhorfendum um allt land innsýn inn í líf vinsælla persóna sagnaheims og þjóðlífsins líkt og Gísla Súrson og Gísla á Uppsölum, en jafnframt staðið fyrir einleikjahátíðinni sívinsælu Act Alone til fjölda ára.


Nú síðast er það meistari Beckett sem færður er á fjalirnar, en verkið Beðið eftir Beckett eftir Trausta Ólafsson er afrakstur samstarfs leikhúsanna, Senuþjófsins og Kómedíuleikhússins.

Það var í byrjun þessa árs sem einn Beckett aðdáandi kom að máli við annan og leikar hófust. Úr varð ferðalag í texta og tíma þar sem tekist er á um bið eftir ýmsu og úrlausn á öðru og stundum engu í þessu stórkostlega verki.

Verkið er byggt á leiktextum írska módernistans Samuels Beckett sem Trausti hefur sjálfur þýtt, ásamt brotum úr verkum Dante Alighieri, Antonins Artaud og Hallgríms Péturssonar. Trausti leikstýrir verkinu en Elfar Logi fer með hlutverk þess er bíður. Hjörleifur Valsson samdi tónlistina og er Marsibil höfundur leikmyndar og búnings.

Verk Becketts eru sögð gera atlögu að raunsæishefðinni þar sem hvorki hefðbundinn söguþráður né einingar tíma og staðar eru mikilvægar, séu þær þá á annað borð til staðar. Það er því heldur hið mannlega ástand sem skipti máli hverju sinni. Og hvað er meira viðeigandi en einmitt það á tímum heimsfaraldurs þar sem einingar tíma og staðar óhjákvæmilega raskast og okkar hefðbundni söguþráður fjarri? „Fyrst af öllu verðum við að átta okkur á því að leikhúsið, eins og farsóttin, er sturlun og að það er smitandi. Andinn trúir því sem hann sér og framkvæmir það sem hann trúir; þetta er leyndardómur hrifningarinnar.“

Beðið eftir Beckett, Elfar Logi Hannesson, Trausti Ólafsson, Kómedíuleikhúsið, Haukadalur, pistill, list, menning, leikhús, einleikur, leikrit, Arnhildur Lilý Karlsdóttir, Vestfirðir, landsbyggðin, úr vör, vefrit
„Í biðinni leynast jafnt áskoranir sem lausnir. Og stundum töfrastundir.“ Ljósmynd Kómedíuleikhúsið

Trausti er á slóðum Becketts í verki sínu. Sviðsmyndin er einföld en kunnugleg þeim sem hafa kynnst Beckett. Tré, ferðataska, kjólföt og hattur.

Biðin, sem er sterk vísun í Beðið eftir Godot, er einnig leiðarstef verksins og rammi, en einnig má finna ólíkan hrynjanda sem leiðir verkið áfram. Verkið, sem er einleikur, ferst Elfari Loga vel úr hendi. Persónusköpunin er einlæg, jafnvel einföld á tíðum og hlutlaus sem gefur textanum og hinum stílfærðu hreyfingum leikarans meira vægi.

Í verkinu takast þannig á textinn og leikurinn eins og tveir keppinautar um áhorfandann. Textinn er í senn ágengur og óræðinn „Dansaðu svín, dansaðu!“ og sveiflar áhorfandanum út fyrir mörk rökvísi og skilnings svo hugurinn má taka sundtök til að halda velli eða þá hreinlega gefa eftir og leyfa sjónleiknum að flæða yfir sig líkt og öldugangur. En hinar stílfærðar hreyfingar Elfars Loga sem kenna má við smiðju Commedia dell´arte koma áhorfandanum til hjálpar og veita honum haldreipi því þær eru jafnt trúðslegar sem fagurfræðilegar í senn og því þægilega kunnuglegar mitt í hinu óþekkta.

Og nú hefur verið beðið eftir Beckett út um allt land því sýningin hefur ferðast landshorna á milli í Haukadal, á Akureyri, Eskifirði og Egilsstöðum og í Reykjavík. Og ljúkum við hér þessum pistli með þeirri ósk um að við megum bíða sem víðast og oftast með Beckett eða án hans því í biðinni leynast jafnt áskoranir sem lausnir. Og stundum töfrastundir.



Comments


bottom of page