Í dag, sunnudaginn 15. mars árið 2020 fagnar vefritið ÚR VÖR eins árs afmæli. Það er skrýtið að hugsa til þess að eitt ár sé liðið, en óhætt er að segja að tíminn hafi flogið áfram! Við höfum frá upphafi lagt upp með að birta reglulega vel unnið og ítarlegt efni í málaflokkum okkar sem eru listir, menning, nýsköpun og frumkvöðlastarf á landsbyggðinni. Þegar þetta er skrifað hafa birst yfir 160 greinar í málaflokkum okkar, hringinn í kringum landið, sem verður að teljast vera nokkuð gott!
Það er mat okkar að vel hafi tekist til og hafa viðmælendur, lesendur og aðrir sagt okkur að mikil þörf sé á fjölmiðli sem þessum og hafa hrósað okkur fyrir framtakið. Það er alltaf gaman að fá hrós og það gefur okkur vind í seglin, eitthvað sem er nauðsynlegt því við höfum áhuga á að halda áfram.
En allt þetta kostar skildinginn og þar sem erfiðara hefur reynst að fá inn auglýsingatekjur en við gerðum ráð fyrir þá þurfum við á ykkar stuðningi að halda.
Við höfum sett af stað áskriftarsöfnun í gegnum Karolina Fund og vefritið verður því fjármagnað af lesendum. Nokkrir áskriftarmöguleikar eru í boði og hægt er að gerast áskrifandi frá rúmum 1.000 krónum á mánuði, sem er gjöf en ekki gjald og slíkur stuðningur myndi muna rosalega miklu fyrir okkur.
Þannig að ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi, en hægt er að gera það hér í þessum hlekk: https://www.karolinafund.com/project/view/2818
Einnig væri gott og gaman ef þú myndir dreifa orðinu um söfnunina og segja vinum og vandamönnum frá henni. Þinn stuðningur skiptir máli!
Með von um góð viðbrögð og með fyrirfram þökk,
Aron Ingi Guðmundsson,
ritstjóri ÚR VÖR.
Yorumlar