top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Another Þrykk...

...Up my Sleeve.


Einar Viðar Guðmundsson, Another þrykk up my sleeve, listasýning, grafík, list, menning, Úthverfa, Ísafjörður, Vestfirðir, úrvör, vefrit
Einar Viðar Guðmundsson. Ljósmynd aðsend.

Laugardaginn 7. september síðastliðinn opnaði Einar Viðar Guðmundsson Thoroddsen sína fyrstu einkasýningu í Úthverfu á Ísafirði. Sýningin ber heitið ANOTHER ÞRYKK UP MY SLEEVE og stendur til sunnudagsins 6. október næstkomandi. Listamaðurinn var viðstaddur opnun sýningarinnar þar sem boðið var uppá léttar veitingar og spjall.  

 

Í fréttatilkynningu frá forsvarsfólki Úthverfu er haft eftir listamanninum. “Ég hef lengi safnað myndum af formum sem á vegi mínum verða, formum sem ég svo raða saman og vinn með á ýmsan hátt. Það er hins vegar ekki langt síðan að ég uppgötvaði að til er kenning sem nær yfir þessa hluti sem kallast GRAFÍSKIR VIÐBURÐIR (Graphic Events: A Realist Account of Graphic Design). Þetta er hugtak yfir hönnun sem gerist fyrir slysni, þróast með tímanum eða skondnar samsetningar hluta sem eiga ekki beinlínis samleið.“segir Einar.

 

Í fyrrnefndri fréttatilkynningu er jafnframt eftirfarandi haft eftir Einari: “Límmiði á ljósastaur sem tilraun hefur verið gerð að kroppa í burtu, rifið plakat, veðruð auglýsing, móðublettur á glugga, rispa á gámi eða krot á vegg. Þessir svokölluðu viðburðir skilja eftir sig slóð af fallegum, óvæntum formum sem eiga það til að hverfa inn í hversdagsleikann – eitthvað sem við sjáum, en veltum kannski ekki fyrir okkur.

Einar Viðar Guðmundsson, Another þrykk up my sleeve, listasýning, grafík, list, menning, Úthverfa, Ísafjörður, Vestfirðir, úrvör, vefrit
Verk eftir Einar Viðar

Fyrir nokkrum árum byrjaði ég að safna myndum af þessum viðburðum og úr varð myndabók. Formin í safninu enda svo oft í prentverkum á einn eða annan hátt. Nú eru þau orðin að seríu á sýningunni “Another Þrykk Up My Sleeve”. Formunum er raðað saman á margvíslegan máta – þau ýmist dansa saman eða flækjast fyrir hvert öðru.“

 

Að auki kemur fram í fréttatilkynningunni að Einar Viðar Guðmundsson Thoroddsen sé Ísfirðingur búsettur í Haag í Hollandi þar sem hann vinnur við grafíska hönnun, myndskreytingar og prentverk. Verk hans eru margs konar, bókahönnun, prentverk (aðallega RISO og skjáþrykk), leturhönnun, myndskreytingar, og stöku auðkenni og lógó. Á námsárunum við Konunglegu listaakademíuna í Haag - KABK – var áberandi leit hans að jafnvægi milli húmors og alvöru, sem greinilega kemur fram í list hans, hönnun og daglegu lífi.


Við hvetjum áhugasama um að kynna sér endilega þessa áhugaverðu sýningu. Þess ber að geta að starfsemi Úthverfu nýtur styrkja fyrir einstök verkefni frá Myndlistarsjóði, Orkubúi Vestfjarða, Uppbyggingarsjóði Vestfjarða og Ísafjarðarbæ.


Kommentare


bottom of page