Texti: Aron Ingi Guðmundsson

Mikill er máttur safna er yfirskrift alþjóðlega safnadagsins þetta árið, en dagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur þann 18. maí frá árinu 1977. Í dag taka allt að 37.000 söfn í 158 löndum um allan heim þátt í deginum, skipuleggja einhverja dagskrá á safnadaginn sjálfan eða jafnvel vikuna sem 18. maí ber upp á.
Yfirskrift dagsins þetta árið vísar í að söfn hafa mátt og getu til þess að breyta heiminum. Þau eru einstakir staðir til uppgötvana, þau fræða okkur um fortíðina og opna hug okkar gagnvart nýjum hugmyndum. Í tilefni safnadagsins er horft á möguleika safna til að koma á umbótum í samfélaginu á þrenns konar hátt.
Í fyrsta lagi hafa söfn mátt til að uppfylla kröfur um sjálfbærni. Söfn eru lykilþátttakendur í að ná markmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og sem áhrifavaldar í sínum nærsamfélögum leggja þau mikið af mörkum á þessu sviði. Í öðru lagi er það máttur safna til að stuðla að nýsköpun varðandi stafræna miðlun og aðgengi. Söfn eru orðin að vettvangi nýsköpunar þar sem ný tækni er þróuð og innleidd í hversdagslífið. Stafræn þróun og nýsköpun getur líka aukið aðgengi að söfnum til muna og stuðlað að skilningi á flóknum og erfiðum fyrirbærum.
Í þriðja lagi er það máttur safna til að styðja við samfélagið með öflugri fræðslu meðal annars með safnkosti sínum og opinni dagskrá. Þau halda á lofti lýðræðislegum gildum og bjóða upp á símenntunarmöguleika fyrir öll sem áhuga hafa og leggja þannig sitt af mörkum til að móta upplýst og þátttökuvænt samfélag.
Dagrún Ósk Jónsdóttir er verkefnisstjóri safnadagsins í ár. Dagrún segir undirbúningur gangi framar björtustu vonum: “Þetta er mjög skemmtilegt og fólk er svo til í að vera með. Söfnin eru auðvitað ótrúlega mikilvæg og geta haft svo mikil áhrif bæði á okkur persónulega og samfélagið í heild sinni.” Dagrún bætir síðan við:
“Söfnin halda oft úti miklu og merkilegu menningarstarfi og þau snúast auðvitað bæði um að varðveita og miðla, svo safnafólkið er bæði hugmyndaríkt og sniðugt, þegar það finnur upp á einhverju til að halda upp á daginn.”
Dagrún segir að þema dagsins sé sérstaklega viðeigandi: “Þegar kemur að nýsköpun til dæmis, þar eru söfn mjög framarlega, svo auðvitað í allri þessari fræðslu og miðlun. Þau eru líka mjög mikilvæg þegar kemur að hugmyndum okkar um sjálfbærni. Það eru margir sem tengja söfn við fortíðina, en það má ekki gleyma að þau eru í raun jafn tengd framtíðinni. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að skilja hvaðan við komum, til að vita hvert skal stefna. Þess vegna hvet ég ykkur öll til að skella ykkur á safn þann 18. maí,” segir Dagrún að lokum.
Í tilefni safnadagsins verða söfn víða um land með frítt inn eða dagskrá af einhverju tagi. Nánari upplýsingar um það má nálgast á Facebook-síðu safnadagsins: https://www.facebook.com/safnadagurinn
Við hvetjum áhugasama um að láta þetta ekki framhjá sér fara!
Comments