A! Gjörningahátíð fer fram á Akureyri dagana 1. - 4. október næstkomandi. A! er fjögurra daga alþjóðleg gjörningahátíð sem haldin er árlega og nú í sjötta sinn. Ókeypis er inn á alla viðburði.
Í fréttatilkynningu um hátíðina kemur fram að sérstök dómnefnd valdi úr innsendum umsóknum listamanna og eru fjölbreyttir gjörningar og leikhústengd verk af öllum toga á dagskránni.
Þátttakendur eru ungir og upprennandi listamenn, ásamt reyndum og vel þekktum gjörningalistamönnum og leikhúsfólki.
Einnig segir að sökum Covid-19 er hátíðin smærri í sniðum en áður og þurftu fjórir erlendir listamenn að afboða komu sína. Að þessu sinni fara gjörningarnir fram í Listasafninu á Akureyri, Menningarhúsinu Hofi, Vanabyggð 3 og Sæborg í Hrísey. Gætt verður að fjarlægðartakmörkunum og sóttvörnum og gestum boðið upp á andlitsgrímur og spritt.
Listamennirnir sem koma fram í ár eru: Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Anna Richardsdóttir, Egill Logi Jónasson og Hekla Björt Helgadóttir, Halldór Ásgeirsson, Katrín Gunnarsdóttir og Rán Flygenring, Páll Haukur Björnsson, Steinunn Önnu - Knútsdóttir og Gréta Kristín Ómarsdóttir, Þóra Sólveig Bergsteinsdóttir, Erwin van der Werve ásamt Örnu Valsdóttur, Arnbjörgu Kristínu Konráðsdóttur, Brák Jónsdóttur, Freyju Reynisdóttur, Hörpu Björnsdóttur, Silfrúnu Unu Guðlaugsdóttur og Töru Njálu Ingvarsdóttur.
Gjörningahátíðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Leikfélags Akureyrar, Menningarhússins Hofs, LÓKAL alþjóðlegrar leiklistarhátíðar, Gilfélagsins, Listnámsbrautar Verkmenntaskólans á Akureyri, Vídeólistahátíðarinnar Heim og Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar.
Dagskrána má sjá á heimasíðu Listasafnsins á Akureyri - www.listak.is
Við hvetjum áhugasama um að kynna sér hátíðina og sjá spennandi gjörninga á Akureyri á næstu dögum! Þess má geta að ÚR VÖR fjallaði um A! Gjörningahátíðina á síðasta ári, hægt er að lesa um það hér: https://www.urvor.is/post/a-gjorningahatidin-2019
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Comments