Þú stendur frammi fyrir fjalli, fjallið er hið kapitalíska markaðshagkerfi og fjallið drottnar yfir þér. Þetta er ekkert nýtt, svona hefur þetta verið frá því elstu menn muna, þú hefur alltaf mátt þín lítils gagnvart þessu fjalli, undirborgaður, valdlaus og stöðugt áminntur um skort þinn á þörfum jafnt sem óþörfum hlutum, því án taugaveiklaðrar vanmáttarkenndar millistéttarinnar verður hún eirðarlaus og án raunverulegs skorts og þreytu lágstéttarinnar fyllist hún byltingarmóð.
Það dimmir og það jólar og og fjallið hækkar í takt við yfirborð sjávar og þræðirnir sem halda öllu á sínum stað verða skýrari; þetta eru lögreglulínur, hlekkir, plastborðar utan um jólagjafir og allra handa hleðslusnúrur. Úti kveikir máninn blóðrauða sigð og inni hengja barnshendur grenitréslaga ilmspjöld á mattar greinar gervijólatrjáa. Bærinn á enn sem fyrr allt sitt undir vinnustöðunum, undir launagreiðslunum, styrktum jólaskemmtunum, íþróttakappleikjum – það hefur varla verið keyptur flygill eða altaristafla eða sparkvöllur á þessu landi sem ekki var undireins merktur einhverjum örlátum manni sem fjármagnaði sig með því að fleyta rjómann af virði annarra manna vinnu. Það verða engin jól ef það er ekkert spons, þetta veistu, þetta er ekkert nýtt, þetta er fjallið, þetta eru leikreglurnar og þú átt hægara með að ímynda þér algera tortímingu alls – innviða, ástvina, sjálfrar fegurðarinnar – en breyttar leikreglur. Þú getur þrammað á fjallið en þú sigrar það ekki.
Það verða líka jól, þrátt fyrir allt, og eftir þessi jól verða önnur jól, það koma svartir föstudagar á eftir þessum, og þannig koll af kolli, og einn daginn mun Rannsóknarsetur verslunarinnar enn á ný velja jólagjöf ársins. Það verður sungið í kirkjum til dýrðar drottni, náttúran tilbeðin með ljósi í myrkrinu og trjám í auðninni, ástin tignuð í faðmlögum, fegurðinni fagnað með baði og sparifötum, ljóðlistin hesthúsuð einsog konfektkassar, skömminni og óttanum hafnað með óhófi og vefverslunum greidd sín tíund, kreditkortafyrirtækin fá sitt pund af holdi með vaxtavöxtum á raðgreiðslum og þetta lendir áreiðanlega allt í vanskilum og þú veist að það sem drepur þig ekki blóðmjólkar þig bara fram á grafarbakkann.
En það koma jól og önnur jól, þetta veistu, þú ferð aftur á kontórinn, aftur í frystihúsið, aftur á skítakoppinn, alltaf með skúringarmoppuna á lofti, excelskjalið og bútsögina, alltaf tilbúinn til þess að kveða niður reikningadraugana um hver mánaðamót, alltaf tilbúinn til að uppfylla langanir þinna nánustu með ótrúlegustu hundakúnstum, stundum tilbúinn til þess að afhausa forstjórann og stundum tilbúinn til þess að henda þér fyrir heykvíslarnar honum til varnar. Enda ekkert raunverulegra í lífi þínu en launaseðillinn, ekkert sem skilur jafn harkalega milli feigs og ófeigs, milli þess sem gleður börnin sín og veldur þeim vonbrigðum, og þú veist vel hver prentar út launaseðlana, hver semur á þá tölurnar, hver hirðir afganginn og hverjum finnst hann alltaf manna hlunnfarnastur. Og hver á að prenta út launaseðilinn ef það er enginn haus á forstjóranum lengur?
Það verða jól undir þessu fjalli, það verða miðnæturmessur fyrir gamla guði og nýja, umfang veisluhalda verður aðeins meira en hver og einn ræður við, fjárhagslega, líkamlega, andlega, því hátíðin – þessi heiðni óskapnaður, þessi hedóníska dásemd – er ekki hátíð nema við köstum skömminni og sleppum áhyggjunum, syngjum hærra en raddir okkar þola, stígum dansinn fastar en hnén okkar bera, látum reyna á ofgnóttina þar til við erum móð, sveitt og maríneruð. Ofgnóttin skiptir engan eins miklu máli og þann sem getur ekki látið hana eftir sér annars. En undir þessu fjalli eru líka þeir sem vilja færa sér í nyt löngun okkar til að vera óforskömmuð, til að sleppa fram af okkur beislinu, standa á blístri og skjóta öllum óróleika á frest; okrarar og prangarar, þeir sem afmynda langanir okkar og þrár með glingri og fagurgala. Kannski er það líka gaman, kannski er það hluti af ritúalinu, og kannski er þá best að bera kennsl á það sem slíkt, svo draslþynnkan verði þolanlegri; en það er líka glatað og þeir eiga áreiðanlega allir heima í gapastokknum.
Þú býrð undir fjalli, ofan við sjó, hefur haft lífsviðurværi þitt af duttlungafullri náttúru frá landnámi og lengst af taldirðu það helst til mark um karakterstyrk að vinnuveitandi þinn – úfið hafið, visin auðnin, fjallið með fuglabjargi og snjóhengjum – skammtaði þér stöku mola úr hnefa af sínu allsnægtaborði og varpaði einum og einum fram af hamri, ofan í djúpið eða dræpi hann úr hor. En það var aldrei til marks um karakter, þetta veistu núna, heldur uppgjöf. Lífið er nefnilega ekki til þess að láta drottna yfir sér (nema mesta lagi í leik).
Lifi byltingin. Lifi ofgnóttin. Gleðilega aðventu.
Texti: Eiríkur Örn Norðdahl
Comments