top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Menning og fólkið í landinu

Updated: May 11, 2019


 Lýðháskóli Flateyrar, Vífill Karlsson, menning og fólkið í landinu, samvinnuskúlptúr, Húsið-Creative Space, úr vör, vefrit, Aron Ingi Guðmundsson, Patreksfjörður
Samvinnuskúlptúr nema í Lýðháskóla Flateyrar og íbúa Patreksfjarðar var sýndur í Húsið-Creative Space á dögunum. Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Hversu ánægt er fólk af landsbyggðinni með menninguna sem því býðst heima í héraði? Skiptir menningarlíf einhverju máli varðandi búsetu fólks þar? Okkur er sagt að menning sé okkur mikilvæg. Hún hefur verið til umfjöllunar innan hagfræðinnar og væri það varla ef hún skipti litlu eða engu máli.

Ekki er langt síðan (árið 2004) að hagfræðingurinn dr. Ágúst Einarsson skrifaði merkilega bók um tónlist, mikilvægi hennar og virði. Þar komst hann að því að framlag menningar næmi um 4% af landsframleiðslu – sem er mikið. Sem dæmi þá var framlag sjávarútvegs til vergrar landsframleiðslu 6,2% árið 2017 og ferðaþjónustu 8,6%. En hvernig snýr menningin að íbúum landsbyggðarinnar?


Í skoðanakönnun sem framkvæmd var meðal flestra atvinnuþróunarfélaga og landshlutasamtaka árin 2016 og 2017 var spurt: Hvert er álit þitt á stöðu eftirfarandi þátta/málaflokka í þínu sveitarfélagi? Síðan gátu þátttakendur merkt við: Mjög góð, frekar góð, hvorki né, frekar slæm og mjög slæm. Þar var menningu að finna ásamt 39 öðrum þáttum er tengdust afkomu heimilanna, innviðum samfélagsins, verkefnum ríkisins, samfélaginu á staðnum og verkefnum viðkomandi sveitarfélaga.

Þegar heildareinkunn þáttanna var reiknuð lenti menning í 14. sæti af 40 þannig að eingöngu 13 þættir fengu betri umsögn en menning í héraði.

Í ljós kom að íbúar voru almennt ánægðari með menningu heimafyrir eftir því sem þeir voru eldri, með meiri menntun eða höfðu búið lengi í viðkomandi sveitarfélagi. Svo er fólk með börn á heimilinu heldur ánægðari með menningu en barnlausir.

Þá var athyglisvert að sjá ánægju aukast í sveitarfélögum eftir því sem fjær dró höfuðborgarsvæðinu. Það kann að vera vegna þess að íbúar á jaðri höfuðborgarsvæðisins geri meiri kröfur til menningar eða að nálægðin við höfuðborgarsvæðið geri framboð á menningu minna.

Nýleg grein mín í þessu tímariti um menningu og fyrirtæki á landsbyggðinni bendir hins vegar til að seinni skýringin sé veikburða eða standist ekki.

Þessari sundurliðun á svörun mætti alveg eins snúa á haus og segja að minna menntað fólk, nýir íbúar, barnlausir og karlmenn séu óánægðari með menninguna þar sem þeir búa en aðrir hópar samfélagsins.

Lýðháskólinn á Flateyri, smiðja, menning, Aron Ingi Guðmundsson, Vífill Karlsson, menning og fólkið í landinu, úr vör, vefrit, Húsið-Creative Space, Patreksfjörður
Frá smiðju nema Lýðháskólans á Flateyri í Húsinu-Creative Space á Patreksfirði á dögunum. Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Athygli vakti að konur voru almennt ánægðari en karlar með menningu í þeim sveitarfélögum þar sem þær búa. Það er nú kannski eins gott því þær leggja meira upp úr menningu en karlar. Þær fullyrða að menning hafi meira um það að segja hvar þær búa en karlar. Þá er lagt út af spurningunni: Hver eftirfarandi þátta/málaflokka finnst þér skipta miklu eða litlu máli fyrir áframhaldandi búsetu þína í sveitarfélaginu?

Þegar svör allra þátttakenda voru skoðuð við þeirri spurningu um mikilvægi allra þáttanna 40 kom í ljós að menningin lenti í 19. sæti. Á því sést að 18 þættir voru taldir á þennan hátt mikilvægari en menningin. Sem dæmi þá lentu grunnskólinn og dvalarheimili sitt hvorum megin við menningu í þessari mikilvægisröð.

Þess utan var menningin mikilvægari eldra fólki og þeim sem ekki eru með börn á heimilinu. Það er athyglisvert en kannski rökrétt að barnafjölskyldur leggi ekki eins mikið upp úr menningu þar sem þær búa og þeir sem eru barnlausir. Kannski er það vegna þess að barnafjölskyldur eru bara uppteknari í sínu daglega amstri en barnlausir.


Í byggðaþróunarlegu samhengi hefur verið litið til fólks á barneignaraldri, konur og barnafjölskyldur sem viðkvæmustu og eftirsóttustu hópa sérhverrar byggðar. Leggjum við þá of mikla áherslu á menningu í byggðaþróun þar sem ungt fólk og fólk með börn leggur ekki mikið upp úr þessum þætti? Þess utan er ánægja með menningu meiri eftir því sem fjær dregur höfuðborgarsvæðinu.

Nei, alls ekki því menning er þrátt fyrir allt rétt fyrir ofan meðallag í mikilvægisröðinni eins og áður sagði. Þá leggja konur mikið upp úr menningu og þær eru nær helmingur allra íbúa á landsbyggðinni. Þess utan styður menning mjög vel við ferðaþjónustu sem er kannski ein bjartasta von landsbyggðarinnar í atvinnumálum sem komið hefur fram á síðari tímum.
Stykkishólmur, menning og fólkið í landinu, Vífill Karlsson, úr vör, vefrit, landsbyggðin
Falleg kvöldsól í Stykkishólmi. Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Sé menningu blandað í „hæfilegum“ skammti við ferðaþjónustu getur upplifun ferðmanna orðið meiri og dvöl þeirra lengst til muna. Það eykur líkurnar á að fleiri njóti ávaxtanna af atvinnugreininni, að ferðamennirnir fari ánægðari til síns heima og ferðaþjónustan hérlendis verði umhverfisvænni þar sem megnið af vistspori ferðamanns liggur í fluginu.


Að lokum skal á það bent að hugtakið menning var ekki skilgreint fyrir þátttakendum könnunarinnar og þeirra fyrirfram gefni skilningur á því látinn standa. En hann getur verið ólíkur frá manni til manns. Í framhaldinu væri síðan áhugavert að reyna að komast að því hvað fólk skilgreinir sem menningu. Áhugaverður væri t.d. munur á milli aldurshópa og jafnvel kynja svo dæmi séu tekin.


Allar niðurstöður hér byggja á rúmlega 4.000 svörum og tölfræðilega marktækri greiningu. Könnunin var gerð meðal íbúa á öllu landinu nema á Norðurlandi eystra, Austurlandi og höfuðborgarsvæðinu.


Texti: Vífill Karlsson


Comments


bottom of page